Innlent

Suður-Evrópubúar oftast teknir fyrir hraðakstur

Hafa stöðvað 500 erlenda ökumenn fyrir hraðakstur frá 15. maí.
Hafa stöðvað 500 erlenda ökumenn fyrir hraðakstur frá 15. maí. MYND/GÞS

Tæplega helmingur þeirra sem stöðvaðir eru fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli eru erlendir ökumenn. Á síðustu þremur mánuðum hafa um eitt þúsund ökumenn verið teknir fyrir hraðakstur þar af um 500 útlendingar. Ítalir, Spánverjar og Frakkar keyra hraðast.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli hafa 1.358 ökumenn verið stöðvaðir fyrir hraðakstur í umdæminum frá áramótum. Þar af 756 Íslendingar og 602 útlendingar. Frá miðjum maímánuði til dagsins í dag hafa 994 verið stöðvaðir fyrir hraðakstur þar af 500 erlendir ökumenn.

Að sögn lögreglunnar keyra hinir erlendu ökuþórar mun hraðar en þeir íslensku. Algengt er að þeir séu teknir á yfir 120 kílómetra hraða á klukkustund. Flestir þeirra koma frá löndum Suður-Evrópu, Ítalíu, Spáni eða Frakklandi.

Lögreglan á Hvolsvelli hefur brugðið á það ráð að láta hanna og dreifa sérstökum einblöðungi með upplýsingum fyrir erlenda ökumenn. Honum hefur þegar verið dreift á bílaleigur en ætlunin er að koma honum líka fyrir um borð í Norrænu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×