Innlent

Ruslatunnur fyrir pappír í boði í borginni

Reykjavíkurborg ætlar í átak til endurvinnslu á pappír en magn dagblaða, tímarita og markpósts hefur aukist um 76 prósent á fjórum árum. Nýjum sorptunnum sérmerktum fyrir pappír verður ekið í hús í borginni eftir helgina.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri fékk fyrstu tunnuna heim til sín í morgun og fór fyrsta dagblaðið í tunnuna strax í kjölfarið. Tunnurnar nýju, sem er sömu stærðar og svörtu tunnurnar sem þegar eru í notkun, eru alls ekki ókeypis því þær kosta 7.400 krónur.

Pappírstunnan er þáttur í átaki borgarinnar sem miðar að því að taka markviss græn skref en tunnan sjálf er blá. Þegar fram líða stundir getur rusli úr bláu tunnunni þess vegna lent inni á klósetti hjá landsmönnum eða jafnvel uppi á eldhúsborði. Sorpa sendir pappírinn til Svíþjóðar þar sem hann er endurunninn. Hráefnið sem til verður við endurvinnsluna er notað í dagblöð, eldhúsrúllur og salernispappír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×