Innlent

Dýrara að leggja einkabílnum en einkaþotunni

Aðeins kostar um fimmtán til átján hundruð krónur að leggja einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í þrjátíu klukkustundir. Ef aðeins er stoppað í sex tíma kostar ekkert að leggja á flugvellilnum. Bifreiðaeigendur þurfa hins vegar að greiða fyrir hverja mínútu sem þeir leggja bílum sínum í miðborginni.

Sífellt fleiri festa kaup á einkaþotum til að ferðast til og frá landinu. Þegar slík þota kemur til landsins er kallaður út starfsmaður frá tollgæslunni til að athuga hvort farþegar eru með einhvern tollskyldan varning í fórum sínum. Farþegar þotnanna greiða ekki fyrir þá þjónustu nema ef þeir koma til landsins á kvöldin eða næturnar, heldur ber ríkið kostnaðinn.

Eftir því sem einkaþotum fjölgar hér á landi eykst álagið á starfsmenn tollgæslunnar en fjórir til sex starfsmenn sinna þessari tollgæslu með öðrum verkefnum.

Guðni Markús Sigmundsson hjá Tollgæslunni sagði í samtali við fréttastofu að starfsmönnum hefði ekki verið fjölgað í takt við aukin verkefni heldur væri álagið á þessa starfsmenn meira nú og yfirvinnutímar fleiri. Hann gat þó ekki gefið upp hver kostnaðurinn vegna þessa væri

Þegar einkaþoturnar eru ekki í notkun þá er þeim lagt á Reykjavíkurflugvelli. Þar borga menn fyrir stæðið líkt og menn gera fyrir bílastæði í miðbænum.

Ekkert er greitt fyrir fyrstu sex klukkustundirnar sem vélunum er lagt á vellinum en eftir það kostar að leggja hverju tonni af flugvél rúmar 94 krónur á sólarhring. Algeng þyngd á einkaþotu er 16-20 tonn sem þýðir að það kostar um 15-1800 krónur að leggja einkaþotu á flugvellinum í 30 klukkustundir. Til samanburðar má geta þess að ef bíl er lagt í miðbæ Reykjavíkur kostar hver klukkustund 150 krónur sem gera 4500 krónur fyrir 30 klukkustundir. Það er því mun dýrara að leggja einkabílnum en einkaþotunni í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×