Innlent

Tugir milljóna í tónleika

Forsvarsmenn Kaupþings segjast frekar vilja halda tónleika fyrir alla þjóðina en nota féð og umbuna viðskiptavinum sína til dæmis með lækkun þjónustugjalda. Ekki fæst uppgefið hve mikið fyrirhugaðir afmælistónleikar Kaupþings koma til með að kosta, en ljóst er að kostnaðurinn hlaupi á tugum milljóna.

Tónleikarnir sem verða haldnir á Laugardalsvelli eru þeir stærstu og umfangsmestu sem haldnir hafa verið hér á landi. Engu er til sparað en á tónleikunum koma fram allar skærustu stjörnur landsins í tónlistarbransanum sem og margar minni. Risaskjáir voru sérstaklega fluttir inn fyrir tónleikana til að varpa þeim víðast um Laugardal. Þá voru fluttir inn sex 40 feta gámar af gólfi til að vernda grasið á vellinum Gríðarlegt magn ljósa hefur verið sett upp sem og hljóðbúnaðs.

Eitthvað hljóta þessi herlegheit að kosta. Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi vildi aðspurður þó ekki gefa upp hve mikið.

Þegar allt er tekið saman, það er laun tónlistarmanna, hljóðkerfi, risaskjáir, sérstakt gólf, matur, drykkir, umboðslaun, laun annarra starfsmanna og fleira er ljóst að tónleikarnir kosta tugi milljóna króna. Fólk í bransanum, sem fréttastofa hafði samband við giskaði á að allt í allt sé Kaupþing að punga út einum 30 til 50 milljónir króna fyrir viðburðinn.

Þegar Ingólfur var spurður að því hvort ekki hefði verið hægt að nota peninginn og lækka þjónustugjöld eða umbuna viðskiptavinum Kaupþings á afmælisdaginn sagði hann tónleikana ekki koma starfssemi bankans við, heldur væri aðeins verið að halda veglega upp á 25 ára afmæli hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×