Innlent

Frestur til að gera athugasemdir við skipulag á Kársnesi framlengdur

Frestur til að skila inn athugasemdum varðandi skipulag á hafnarsvæðinu á Kársnesi í Kópavogi hefur verið framlengdur til mánudagsins 3. september næstkomandi. Fresturinn átti upphaflega að renna út 21. ágúst næstkomandi en í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að bæjarráð hafi ákveðið að fara að tillögu Gunnars Birgissonar bæjarstjóra og framlengja frestinn.

Gunnar segir að nokkrir bæjarbúar hafi komið að máli við sig og sagt frestinn of knappan. „Þess vegna lagði ég til við bæjarráð að fresturinn yrði framlengdur um tvær vikur svo að íbúar bæjarins fái betra tækifæri til að kynna sér málið," segir Gunnar í tilkynningunni.

„Skipulagsyfirvöld í Kópavogi láta í framhaldi af samþykkt bæjarráðs endurbirta auglýsingu um skipulag frá 3. júlí síðastliðnum með þeirri breytingu annars vegar að tillögurnar verði til sýnis á heimasíðu bæjarins, og hjá Bæjarskipulagi Kópavogs, Fannborg 6, 2. hæð frá kl. 8.00 til 16.00 mánudaga til fimmtudaga og á föstudögum til kl. 14.00 til 3. september 2007 og hins vegar að athugasemdir og ábendingar skulu hafa borist Bæjarskipulagi skriflega eigi síðar en kl. 15:00 mánudaginn 3. september 2007."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×