Innlent

Útgáfufjöldi vínveitingaleyfa og afgreiðslutími skemmtistaða endurskoðaðir

Útgáfufjöldi vínveitingaleyfa og afgreiðslutími skemmtistaða í miðborg Reykjavíkur verða endurskoðaðir á næstu vikum til að sporna gegn vandanum í miðbænum um helgar. Auk þess verður löggæsla að öllum líkindum hert og eftirlitsmyndavélum fjölgað.

Fundur Borgarráðs var haldinn í morgun með Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og voru lausnir við vandanum í miðborg Reykjavíkur ræddar. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri segir nauðsynlegt að lögregla, borgaryfirvöld og rekstraraðilar vinni saman að málefnum miðbæjarans.

Útgáfa vínveitingaleyfa verður endurskoðuð og frekara eftirlit haft með þeim. Þá verður afgreiðslutími skemmtistaða tekinn til skoðunar en ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum enn sem komið er.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins vill sýnilegri löggæslu í miðbænum um helgar. Hann segir stefnt að því í samráði við dómsmálaráðuneytið.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×