Innlent

Tryggingafélögin hagnast um tæpa 20 milljarða króna

Hagnaður tryggingafélaga af lögboðnum ökutækjatryggingum nam einum milljarði króna á síðasta ári.
Hagnaður tryggingafélaga af lögboðnum ökutækjatryggingum nam einum milljarði króna á síðasta ári. MYND/RJ

 

Samanlagður hagnaður tryggingafélaganna eftir skatt nam 19,5 milljörðum króna á síðasta ári og dróst saman um 700 milljónir króna milli ára. Langstærsti hluti hagnaðarins stafar af fjármálarekstri en þá batnaði afkoma af skaðatryggingarekstri meðal annar vegna hækkun iðgjalda. Rekstur lögboðinna ökutækjatrygginga skilaði hagnaði upp á einn milljarð króna.

Fram kemur í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu að um 85 prósent af hagnaði tryggingafélaganna á síðasta ári stafi af fjármálarekstri sem þó lækkaði um 9 millljarða króna milli ára. Þá jukust eignir félaganna um tæpa 30 milljarða milli ára. Voru 128 milljarðar króna í árslok 2005 en námu 156 milljörðum um síðustu áramót.

Í tilkynningunni kemur einnig fram að helstu greinar skaðatrygginga hafi skilað hagnaði á síðasta ári að undanskildum slysa- og sjúkratryggingum. Árið 2005 voru flestar greinar skaðatrygginga hins vegar reknar með tapi. Iðgjöld jukust í öllum greinaflokkum nema sjó, flug- og farmtryggingum. Mest var aukningin í flokki ábyrgðartrygginga.

Um helmingur iðgjalda í skaðatryggingum er vegna ökutækja en iðgjöld þar hækkuðu í fyrra. Hagnaður af rekstri lögboðinna ökutækjatrygginga nam einum milljarði króna en frjálsar ökutækjatryggingar voru hins vegar reknar með 720 milljarða króna tapi.

Líftryggingafélögin högnuðust um 1,5 milljarð á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 500 milljónir milli ára. Skýrist aukinn hagnaður fyrst og fremst af hækkun á iðgjöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×