Innlent

Íbúar á Kársnesi halda fund um skipulagsmál

Íbúasamtökin Betri byggð á Kársnesi halda opinn fund um skipulagsmál nessins í kvöld. Fundurinn hefst klukkan átta og er hann haldinn í Salnum. Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að markmið fundarins sé að gefa íbúum á Kársnesi „kost á að kynna sér nánar inntak þeirra skipulagsbreytinga sem standa fyrir dyrum."

Frummælendur á fundinum verða meðal annara Arna Harðardóttir, formaður BBK, Gunnar Birgisson, bæjarstjóri og Sigríður Kristjánsdóttir, formaður Félags skipulagsfræðinga, en að málflutningi loknum munu frummælendur ásamt Smára Smárasyni, skipulagsstjóra Kópavogs sitja fyrir svörum.

„Frestur íbúa til að skila inn athugasemdum vegna fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi á vestanverðu Kársnesi rennur út 21. ágúst nk. Samkvæmt lögboðinni auglýsingu bæjaryfirvalda sem birtist 3. júlí sl. fjallar skipulagsbreytingin um 4,8 hektara landfyllingu og 54.000 m2 nýbyggingar fyrir hafnsækna atvinnustarfsemi á 27 ha svæði vestast á Kársnesi," segir í tilkynningunni. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þessi umfangsmiklu áform bæjaryfirvalda, eru hvattir til að fjölmenna á fundinn, segir að lokum. Aðgangur er ókeypis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×