Innlent

Ráðherrabílarnir misjafnlega umhverfisvænir

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra er á umhverfisvænasta ráðherrabílnum. Ráðherrabíll flokksbróður hennar í viðskiptaráðuneytinu er fjandsamlegastur umhverfinu í bílaflota ráðherranna. Þrír ráðherrar eru komnir á tvinnbíla, en enginn þeirra getur lagt ókeypis í stæði í miðbænum - til þess eru bílar þeirra ekki nógu visthæfir.

Fyrir fáeinum dögum ræddi fréttastofa við talsmenn leigubílastöðvar sem ætla að vistvæða flotann sinn - en þeir hvöttu stjórnvöld til að taka frumkvæði í vistvæðingu bíla.

Skemmst er frá því að segja að það hafa fæstir ráðherranna gert. Orkusetrið á Akureyri reiknaði út fyrir fréttastofu í dag hversu mengandi ráðherraflotinn er. Í ljós kom að utanríkisráðherra sem er á nýjum Lexus tvinnbíl er á vistvænasta bílnum - sem blæs út í andrúmsloftið 186 grömmum af koltvísýringi á kílómetrann. Hann gengir fyrir rafmagni og bensíni.

Það þykir þó ekkert sérlega til fyrirmyndar því vistvænustu bílar fáanlegir á Íslandi í dag blása rétt rúmum 100 grömmum af koltvísýringi, toyota prius. Á slíkum bíl, segir Sigurður Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkusetursins, ættu allir að vera á, hann sé fyllilega nógu stór fyrir meðalfjölskyldu og meðalráðherra.

Fast á hæla Ingibjargar Sólrúnar koma umhverfisráðherra og heilbrigðisráðherra sem líka aka um á Lexus tvinnbílum.

Í þriðja sæti er félagsmálaráðherra á Hondu CRV.

Þegar hér er komið sögu í bílaflotanum verður hann svartari. Allir hinir átta ráðherrabílarnir spúa meiru en 200 grömmum af koltvísýringi út í andrúmsloftið á kílómetrann. Sigurður hjá Orkusetri segir að slíkir bílar ættu að tilheyra fortíðinni. En í fjórða sæti er dóms- og kirkjumálaráðherra á Benz, forsætisráðherra á BMW, fjármálaráðherra líka, samgönguráðherra er á land cruiser eins og sjávarútvegsráðherra, iðnaðarráðherra er á BMW í sjöunda sæti, menntamálaráðherra vermir næstneðsta sætið en mesti umhverfissóðinn í ráðherraliðinu er Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×