Innlent

Hátt í hundrað börn á biðlistum eftir svæfingu vegna tannviðgerða

Um eitt hundrað börn á aldrinum þriggja til sex ára bíða nú eftir að komast í svæfingu vegna tannviðgerða á tannlæknastofum í Reykjavík. Slík þjónusta hefur ekki verið í boði í um það bil hálft ár vegna kjaradeilu svæfingarlækna og Tryggingastofnunar.



Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að tannheilsu íslenskra barna hefur hrakað síðustu 10 ár. Nú er svo komið að um eitt hundrað börn á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 3-6 ára bíða eftir svæfingu vegna tannviðgerða. Sigurður Rúnar Sæmundsson barnatannlæknir segir veik eða fötluð börn vera í forgangi fyrir svæfingu á landspítalanum en um 12 þeirra séu nú á biðlista. Þau þurfi hins vegar ekki að bíða lengur en 1-3 mánuði. Hinsvegar séu dæmi um að heilbrigð börn bíði í fleiri mánuði eftir aðgerð.



Sigurður segir svæfingu vegna tannviðgerða algjört neyðarrúrræði. Þau börn sem þurfi svæfingu þarfnist mikilla tannviðgerða og sum hafi ekki þroska til samstarfs. Hann segir stóran hóp barna með mjög skemmdar tennur.



Heilbrigðisráðuneytið stefnir að því að reyna draga úr biðlistunum með því að nota svæfingaraðstöðu hjá St. Jósepsspítala í haust. Ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum og standa viðræður enn yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×