Innlent

Engin merki um gliðnun við Hálslón

Öll umræða um hættu á að sprungur undir Hálslóni myndu gliðna við fyllingu Hálslóns voru óþarfar segir jarðeðlisfræðingur sem fylgst hefur náið með skjálftavirkni á svæðinu. Hann segir það hafa komið á óvart hve lítil áhrif lónsfyllingin hefur haft á sprungusvæðið.

Í það minnsta tvær skýrlsur voru gerðar um málið þar sem lagt var mat á það hvort hætta væri á að sprungur sem liggja undir Hálslóni myndu gliðna og land síga þegar fyllt yrði í lónið. Umræða um efnið var mikil og bar hún hæst þegar í ljós kom að skýrsla sem Grímur Bjönsson, jarðfræðingur skrifaði, hafði verið stungið undir stól. Í þjóðfélaginu spratt upp umræða um hugsanlegar hamfarir á svæðinu og Landsvirkjunarmenn sakaðir um að taka of mikla áhættu. Landsvirkjun lét endurmeta svæðið og fékk jarðeðlisfræðinga til að fara nákvæmar í saumana á áhættunni samfara fyllingu lónsins. Út kom skýrsla sem bar nafnið Mat á vá við Kárahnjúka þar sem lagt var til að vel yrði fylgst með svæðinu. Mælar voru settir upp og jarðvegurinn undir lóninu styrktur með því að fylla í sprungur.

Hvort það hafi borið árangur er ekki gott að segja en mælingar Kárahnjúkasvæðinu sína að fylling lónsins hefur ekki haft nein áhrif á sprungusvæðið. Steinunn Sigríður Jakobsdóttir jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni segir enga skjálfta hafa mælst á svæðinu sem komi á óvart. Áhyggjur sem fólk hafði fyrir fyllingu Hálslóns af því að sprungur myndu gliðna séu óþarfar í það minnsta enn sem komið er. Áfram verður fylgst með svæðinu og ekki er útilokað að þar muni mælast skjálftar í framtíðinni en þeir muni vonandi ekki hafa áhrif á lónið sjálft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×