Innlent

Selja vatn á Bandaríkja- og Bretlandsmarkað

Byrjað verður að reisa vatnsverksmiðju á Rifi á Snæfellsnesi í næsta mánuði og en reiknað er með að hún muni skapa um 50 störf. Vatnið verður flutt út frá Rifi bæði til Bretlands og Bandaríkjanna.

Samningar tókust í lok síðustu viku milli Snæfellsbæjar og fyrirtækisins Iceland Glacier Products um að fyrirtækið reisi vatnsverksmiðju á Rifi. Þeir samningar voru svo staðfestir á fundi bæjarráðs í gær. Að Iceland Glacier Products standa tveir íslenskir aðilar og kanadískur fjárfestingarsjóður sem sjá mikla möguleika í útflutningi á vatni frá Rifi til Bretlands og Bandaríkjanna.

Vatnsverksmiðjan, sem standa mun skammt frá þjóðveginum við Rif, verður tíu þúsund fermetrar og hefjast framkvæmdir við hana strax í næsta mánuði. Reiknað er með að áttöppun vatns hefjist svo á seinni hluta næsta árs. Að sögn Sverris Hermanns Pálmasonar, stjórnarmanns í félaginu er ætlunin að tappi á flöskur og 240 tonn vatntanka sem eru áætlaðir fyrir vínverksmiðjur.

Að sögn Eyþórs Björnssonar, bæjarritara í Snæfellsbæ, auka þessi áform Iceland Glacier Products, bæði kraft og bjartsýni í Snæfellsbæ ásamt því að auka fjölbreytni í atvinnulífi. Þá skapist einnig störf við uppbyggingu verksmiðjunnar. Aðspurður um ávinning bæjarins af verksmiðjunni segir Eyþór að hann fái hefðbundin gjöld en auk þess þýði þetta tekjur fyrir höfnina á Rifi því vantið verði flutt beint þaðan út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×