Innlent

Höfnuðu írsku ferjunni oftar en einu sinni

Sveitarstjóri Grímseyjar segir heimamenn hafa hafnað írsku ferjunni, Oliean Arann, oftar en einu sinni og komið þeim skilaboðum til bæði Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins. Hann segir fulltrúa Grímseyjar einnig hafa varað báðar stofnanir við því að kostnaður við viðgerð yrði mun meiri en áætlað var - enda hafi skipið litið hrikalega út.

Brynjólfur Árnason, sveitarstjóri í Grímsey, sendi frá sér í gærkvöldi harða gagnrýni á skýrslu Ríkisendurskoðunar en heimamenn voru gagnrýndir þar meðal annars fyrir að koma með síðbúnar kröfur sem hafi hleypt upp viðgerðakostnaði. En Brynjólfur segir að afstaða heimamanna hafi verið skýr frá upphafi.

Brynjólfur segir að bæði Vegagerðin og Samgönguráðuneytið hafi verið upplýst um afstöðu Grímseyinga í samtölum og skriflega í tölvupósti.

Varðandi síðbúnar kröfur Grímseyinga, segir Brynjólfur þær hafa snúist um öryggi, léttabáta og aðgengi fyrir hreyfihamlaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×