Innlent

Telja aflaverðmæti smábáta minnka um fjóra milljarða

MYND/GVA

Landssamband smábátaeigenda áætlar að aflaverðmæti smábáta minnki um fjóra milljarða króna vegna þeirra ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að skerða þorskkvóta um þriðjung á næsta fiskveiðiári.

Forsvarsmenn landssambandsins funduðu í gær með Geir H. Haarde forsætisráðherra vegna málsins og fram kemur á heimasíðu sambandsins að áhersla hafi verið lögð á að upplýsa ráðherra hversu hart niðurskurðurinni komi niður á smábátaútgerðinni. Jafnframt kynnti landssambandið forsætisráðherra gagnrýni sína á tillögur Hafrannsóknastofnunar en sambandið telur að árleg veiði næstu þrjú ár eigi að vera 220 þúsund tonn í stað 130 þúsund tonna. Lýsti sambandið vonbrigðum með að ekki hefði verið tekið tillit til sjónarmiða sjómanna á ástandi þorskstofnsins, líklega væri það einsdæmi í vísindaheiminum.

Forsætisráðherra sagði hins vegar engar líkur á að ákvörðuninni yrði breytt. Einstök fyrirtæki væru nú þegar byrjuð að skipuleggja sig með tilliti til hinnar breyttu stöðu. Hann sagði Byggðastofnun vera ætlað stórt hlutverk í að aðstoða einstaka útgerðir, unnið væri að útfærslu um það atriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×