Innlent

Impreglio vill gefa Ómari Ragnarssyni skýli undir Örkina að skilnaði

Þorpið við Kárahnjúka er til sölu en það getur hýst hátt á annað þúsund manns. Þeir sem geta flutt það í heilu lagi í burtu fá það nánast ókeypis. Impreglio vill gefa Ómari Ragnarssyni skýli undir Örkina að skilnaði.

Verktakafyrirtækið Impreglio fækkar verulega í starfsliði sínu á Kárahnjúkum núna í haust en þar er mikil þyrping vinnubúða sem þarf að hverfa af virkjanasvæðinu í kjölfarið.

Ómar R. Valdimarsson, talsmaður Impreglio, segir að fyrirtækinu sé skylt að ganga þannig frá framkvæmdasvæðinu að engin merki verði um þessa miklu byggð á Kárahnjúkum.

Vinnubúðirnar hafa staðið af sér íslenska veðráttu á hálendinu en þær eru af ýmsum toga, allt frá því að rúma einn mann upp í tuttugu.

Talsmaður Impreglio segir að búðirnar fáist fyrir slikk og hann segir að Impreglio hafi í hyggju að færa Ómari Ragnarssyni gjöf að skilnaði. Impreglio vill gefa Ómari bátaskýli fyrir Örkina frægu sem Ómar hefur notað við að siglingar um Hálslón.

Þegar flest var við Kárahnjúka voru þar hátt í tvö þúsund manns en eftir röskan mánuð tekur fólk að flytja frá Kárahnjúkum í stórum stíl.

Að sögn talsmanns Impreglio munu þó um 200 manns verða áfram við Kárahnjúka, allt fram til ársloka 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×