Innlent

Ísfirðingar hafa ekki undan að framleiða fluguveiðihjól

Fyrirtækið Fossadalur á Ísafirði hefur nú vart undan við að framleiða ný fluguveiðihjól fyrir Íslandsmarkað. WISH fluguhjólin frá fyrirtækinu hafa slegið í gegn á Íslandi og markaðssetning er hafin á erlendum mörkuðum.

Fyrirtækið Fossadalur er sprotafélag frá þekkingarfyrirtækinu 3X technology sem starfrækt er á Ísafirði. 3X hefur hannað og þróað tæki fyrir matvælaiðnað og hlaut útflutningsverðlaun forseta Íslands á síðasta ári.

Forsprakkar Fossadals gerðu hagkvæmniathugun á framleiðslu á fluguveiðihjólum fyrir fáeinum misserum og áætlanir lofa góðu.

Wish-hjólin eru framleidd í verksmiðju 3X á Ísafirði og til þess er notaður tölvustýrður rennibekkur. Tölvuteikning er gerð af hverju hjóli og álstöng sett inn í rennibekkinn og afraksturinn er fullkomið og háþróað veiðihjól. Menn hjá Fossadal vonast til þess að geta aukið verulega umsvif sín á næstunni og fyrirtækið geti þannig að hluta til mætt þeim samdrætti sem er í fiskiðnaði á Ísafirði.

Hjólið hefur nú þegar verið reynt við erfiðar aðstæður og hefur farið víða. Frægasti veiðimaðurinn sem hefur þetta í veiðigræjum sínum er líklegast Georg Bush eldri, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sem tók við hjólinu úr hendi Ólafs Ragnar Grímssonar forseta Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×