Innlent

Forgangsvopnaleitarhlið á ábyrgð flugvalla- og samgönguyfirvalda

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Nýtt forgangsvopnaleitarhlið á Keflavíkurflugvelli er á ábyrgð flugvalla- og samgönguyfirvalda. Það er því undir þeim komið hvort hliðið standi áfram en ekki dómsmálaráðherra og lögreglunni.

Fyrir rúmri viku var tekið í notkun sérstakt vopnaleitarhlið á Keflavíkurflugvelli. Hliðið er einungis ætlað þeim sem ferðast á Saga Class með Icelandair og fyrir farþega Iceland Express sem greiða sérstakt gjald. Hliðið er opið tvisvar sinnum tvo tíma á dag eða þegar mesti álagstíminn er og á að flýta fyrir farþegunum í gengum vopnaleit. Aðeins er um tilraunaverkefni að ræða og verður tekin ákvörðun um framhaldið í lok ágúst.

Friðþór Eydal, fulltrúi Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli, segir flugfélögin standa algjörlega á bak við þann aukakostnað sem skapast af hliðinu og segir sambærilegt fyrirkomulag víða annars staðar. Ýmsir hafa haldið því fram að óeðlilegt sé að hægt sé að greiða fyrir forgang í vopnaleit en Björn Bjarnason dómsmálaráðherra lýsti á heimasíðu sinni yfir efasemdum með fyrirkomulagið. Samkvæmt upplýsingum frá flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli er það er þó ekki undir dómsmálaráðherra komið hvort hliðið verði áfram notað þar sem það er á ábyrgð flugvalla- og samgönguyfirvalda. Vopnaleit er sinnt af öryggisvörðum og er á ábyrgð flugvallaryfirvalda.

Þrátt fyrir töluverða umfjöllun um hliðið hafa fáir farþegar enn sem komið er nýtt sér það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×