Innlent

Iðnaðarráðherra ekki hrifinn af olíuhreinsistöð

Iðnaðarráðherra er ekki hrifinn af þeim hugmyndum sem fram hafa komið um að setja niður olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Bæjarstjórinn á Ísafirði vill að kannað verði til þrautar hvort þessi iðnaður sé heppilegur.

Olíhreinisstöð á Vestfjörðum getur skapað rösklega fimm hundruð störf sem væru án efa kærkomin á tímum samdráttar í aflaheimildum.

Í vor tilkynntu forvígsmenn Kambs á Flateyri að fiskvinnslu og útgerð yrði hætt og Héraðsdómur Vestfjarða samþykkti nýlega beiðni stjórnar rækjuverksmiðjunnar Miðfells á Ísafirði um að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þarna hverfa hátt á annað hundrað störf.

Sveitastjórnarmenn á Vestfjörðum fóru fyrir fáeinum dögum til Evrópu að skoða olíuhreinsistöðvar með það í huga að kanna með hvaða hætti slíkur iðnaður gæti leyst vanda Vestfirðinga. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði, telur fáránlegt að hafna með öllu þessum kosti án þess að kannað sé ofan í kjölinn hvort hann henti íslenskum aðstæðum.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra segist ekki heillaður af þessum iðnaði fyrir íslenskar aðstæður. Hann segir að þessar hugmyndir hafi áður komið fram hjá nákvæmlega sömu aðilum fyrir kosningarnar 1999 og þá hafi þær einfaldlega gufað upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×