Innlent

Lögreglan stöðvaði skapstóran ökumann

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði tvítugan ökumann á Hafnarfjarðarvegi í gær. Á bíl hans vantaði skráningarnúmer að framan. Hann hafði einnig trassað að færa ökutækið til skoðunar. Piltinum var bent á að koma þessum hlutum í lag og gefinn ákveðinn frestur til að gera bragarbót.

Tilmæli lögreglu fengu ekki ýkja góðan hljómgrunn því pilturinn barði ákaft í mælaborðið á meðan þessu stóð. Hann greip síðan um höfuð sér og fór út úr bílnum og öskraði út í loftið. Þegar lögreglumaður á vettvangi taldi að pilturinn hefði meðtekið skilaboðin fékk hann að halda för sinni áfram. Þá steig hann hressilega á bensíngjöfina og spólaði af stað svo smásteinar og drulla skutust undan bílnum og á bifhjól lögreglumanns. Pilturinn komst hins vegar ekki mjög langt því það drapst á bílnum og trúlega hefur það ekki bætt skapið.

Lögreglan vonast til að pilturinn verði orðinn rólegri þegar greiðsluseðillinn berst. Pilturinn á 15 þúsund króna sekt yfir höfði sér. Fyrir að aka bíl án skráningarnúmers að framan og fyrir tillitsleysi gagnvart þeim sem staddir eru við veg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×