Innlent

Ísland þarfnast ekki Rio Tinto

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra.
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra. MYND/PB

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir reynslu íslenskra stjórnvalda af fyrirtækinu Rio Tinto ekki góða og telur að Ísland þarfnist ekki fyrirtækisins. Þá segist hann vera vitandi um það slæma orðspor sem fyrirtækið hefur meðal umhverfissina og það hjálpi ekki til með að skapa sátt um náttúruvernd á Íslandi.

„Satt að segja er reynsla íslenskra stjórnvalda af Rio Tinto ekki góð," sagði Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, í samtali við Vísi. „Þeir áttu í viðræðum við stjórnvöld fyrir mörgum árum um byggingu kísilmálmverkssmiðju á Reyðarfirði. Bæði heimamenn og stjórnvöld höfðu búið sig undir þetta en þá hættu þeir við."

Bresk-ástralska námufélagið Rio Tinto gerði í gær yfirtökutilboð í fyrirtækið Alcan sem rekur álverið í Straumsvík. Rio Tinto hefur lengi verið gagnrýnt af umhverfisverndarhópum og samtökum víða um heim. Þykir fyrirtækið meðal annars skeyta litlu um umhverfis- og öryggismál og þá hefur það verið sakað um að virða ekki réttindi verkamanna. Fyrirtækið sætti einnig harðri gagnrýni fyrir að valda gríðarlegum umhverfisspjöllum við námur í Nýju-Gíneu og verið sakað um að stuðla að borgarastyrjöld í Bougainville í Nýju Gíneu.

Össur segist vera vitandi um það slæma orðspor sem fyrirtækið hefur meðal umhverfissina og að mönnum í þeim hópi lítist illa að fá Rio Tinto hingað til lands. „Það síðasta sem við þurfum núna þegar er verið að reyna skapa sátt um verndun náttúrunnar er nýr aðili með fortíð af þessu tagi komi hingað. Þar að auki er það skoðun ráðherra að það sé nóg framboð af fyrirtækjum sem vilja ráðast í stóriðjuframkvæmdir hér á landi. Miklu meira framboð en eftirspurn. Það er engin þörf af Íslands hálfu fyrir fleiri fyrirtæki sem vilja ráðast í stóriðju hér."

Össur segist þó ekki vera gagnrýna Alcan. „Alcan hefur verið aufúsugestur hér á landi í 40 ár og notið vildar. Í mínum orðum felst því ekki að við ætlum okkur að torvelda starfsemi Alcans hér á landi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×