Innlent

Sýknaðir af ákæru um innflutningi á kókaíni

Tveir menn sem ákærðir voru fyrir stórfelldan innflutning á kókaíni voru sýknaðir fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Um var að ræða 3,8 kíló af kókaíni sem fundust í miðstöðvarkæli bifreiðar sem flutt var til landsins á síðasta ári.

Það var í nóvember á síðasta ári að tollverðir fundu fíkniefni í miðstöðvarkæli bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz. Í kjölfarið hóf lögreglan rannsókn á málinu. Meðal annars voru símar tveggja manna hleraðir en annar þeirra annaðist tollafgreiðslu bifreiðarinnar.

Þá var gerviefni komið fyrir í bifreiðinni í stað fíkniefnanna og sérstakt fingrafaraduft sett á pakkana. Lögreglan handtók síðan mennina tvo eftir að þeir höfðu tekið pakkana úr bifreiðinni. Sýndi fingrafaraduft að báðir mennirnir höfðu handleikið pakkana.

Fyrir dómi sagðist sá sem annaðist tollafgreiðslu bifreiðarinnar ekki hafa vitað af fíkniefnunum í bifreiðinni. Bílinn hafi hann fengið sem greiðslu upp í skuld frá þriðja aðila.

Meðákærði sagðist ekki hafa haldið að pakkarnir innihéldu ólögleg fíkniefni. Hann sagðist hafa fjarlægt pakkana fyrir annan mann sem hann vildi ekki nafngreina fyrir dómi af ótta við hefndaraðgerðir. Síðan hafi hann farið með pakkana heim og fleygt þeim.

Í dóminum kemur fram að ekki þyki sannað að mennirnir hafi staðið að umræddum innflutningi.

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var ranglega haldið fram að annar hinna ákærðu hefði starfað sem tollvörður. Beðist er velvirðingar á þeim mistökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×