Innlent

Ungliðahreyfingar takast á um einkavæðingu orkufyrirtækja

Orkuveita Reykjavíkur vill kaupa Hitaveitu Suðurnesja.
Orkuveita Reykjavíkur vill kaupa Hitaveitu Suðurnesja. MYND/RR

Ekki er kveðið sérstaklega á um einkavæðingu orkufyrirtækja í landinu í stjórnarsáttmálanum að mati formanns Ungra jafnaðarmanna. Hann gefur lítið fyrir yfirlýsingar Sambands ungra sjálfstæðismanna um hið gagnstæða. Ungliðahreyfingar stjórnarflokkanna tveggja greinir á um í afstöðu til sölu Hitaveitu Suðurnesja.

„Það stendur ekkert í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að það eigi að einkavæða orkufyrirtæki í landinu," sagði Magnús Már Guðmundsson, formaður Ungra jafnaðarmanna, í samtali við Vísi.

Ungir jafnaðarmenn sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir undruðust orð forystumanna Geysis Green Energy og þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að hugsanleg kaup Orkuveitu Reykjavíkur á Hitaveitu Suðurnesja stríði gegn stefnu ríkisstjórnarinnar. Telja þeir hvergi minnst skýrum orðum á einkavæðingu orkufyrirtækja í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Í kjölfarið sendi Samband ungra sjálfstæðismanna frá sér yfirlýsingu þar sem því var haldið fram að í stjórnarsáttmálanum væri þvert á móti skýrt tekið fram að stefna skuli að einkavæðingu orkufyrirtækjanna.

Magnús segir það ekki skilning Ungra jafnaðarmanna að ríkisstjórnin ætli sér að einkavæða orkufyrirtækin. Vísar hann máli sínu til stuðnings í orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í fjölmiðlum. Hann segir þó stjórnarsáttmálann að þessu leyti loðinn.

„Margir stöldruðu við þessa setningu í stjórnarsáttmálanum og ég viðurkenni að þetta er mjög loðið orðalag. Hins vegar ljóst að það er ekki ein skoðun hjá öllum flokkum í þessum málum. Það eru til að mynda sjálfstæðimenn sem stjórna Orkuveitu Reykjavíkur," sagði Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×