Innlent

Umhverfispostuli messar í Kringlunni

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Lögregla þurfti að hafa afskipti af umhverfisverndarsinnum sem stóðu fyrir mótmælum í Kringlunni í dag. Talsmaður samtakanna Saving Iceland kvartaði undan ágengni lögreglunnar.

Umhverfisverndarsinnar fóru mikinn í Kringlunni í Reykjavík í dag þegar þeir mótmæltu álbræðslu á Íslandi og neyslukapphlaupi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð á staðinn og fylgdi út hópi mótmælenda en þeir höfðu komið sér fyrir í verslunarmiðstöðinni.

Mótmælendurnir, sem eru af ólíku þjóðerni, tengjast samtökunum Saving Iceland sem staðið hafa fyrir aðgerðum við Kárahnjúkavirkjun á Austurlandi.

Talsmenn samtakanna undruðust aðgerðir lögreglu í dag og sögðu mótmælin friðsamleg þar sem umhverfisklerkurinn Billy frá New York fór fyrir sínum söfnuði.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var ekki reynt að handtaka mótmælendur.

Lögreglan tjáði Stöð 2 að stjórnendur Kringlunnar hefðu kvartað vegna ónæðis frá hópnum. Voru lögreglumenn sendir á svæðið í kjölfarið til að tryggja að mótmælin færu friðsamlega fram. Að öðru leyti segist lögregla ekki hafa skipt sér af mótmælendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×