Fótbolti

Lið Brasilíu 1970 kosið besta lið allra tíma

Pele og félagar fagna sigri á HM í Mexíkó árið 1970
Pele og félagar fagna sigri á HM í Mexíkó árið 1970 AFP

Tímaritið Soccer Magazine hefur útnefnt lið Brasilíu sem varð heimsmeistari árið 1970 besta knattspyrnulið allra tíma. Þetta var niðurstaða skoðanakönnunar blaðsins sem gerð var með aðstoð sérfræðinga. Þá valdi blaðið einnig bestu mörk allra tíma og bestu leikina.

Lið Brasilíu sem varð heimsmeistari í Mexíkó árið 1970 þótti besta lið allra tíma að mati nefndarinnar og þótti "meira en gott knattspyrnulið", "fánaberar þess sem kallaður hefur verið fallegur fótbolti" og "svo gott lið að það er orðið goðsagnarkennt." Þetta lið var auðvitað með sjálfan Pele í fararbroddi.

Lið Ungverja frá árinu 1953 var kjörið næst besta lið allra tíma og þriðja besta liðið þótti hollenska liðið sem tapaði úrslitaleiknum fyrir Vestur-Þjóðverjum á HM árið 1974. Fjórða liðið var gullaldarlið AC Milan fá árinu 1989-90 með þá Van Basten, Gullit og Rijkaard í fararbroddi og sjötta besta liðið þótti ofurlið Real Madrid sem vann fimm Evróputitla í röð á sjötta áratugnum.

Síðara mark Diego Maradona gegn Englendingum á HM árið 1986 í Mexíkó var valið besta mark allra tíma og þarf það ekki að koma á óvart. Maradona lék þar á hvern Englendinginn á fætur öðrum frá eigin vallarhelmingi áður en hann skoraði. Hollendingurinn Marco van Basten átti annað fallegasta markið að mati nefndarinnar, en það var stórkostlegt skot hans í úrslitaleik EM gegn Sovétmönnum. Sigurmark Zinedine Zidane fyrir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2002 gegn Bayer Leverkusen var kosið þriðja besta mark allra tíma.

Besti leikur allra tíma þótti undanúrslitaviðureign Vestur-Þjóðverja og Ítala á HM árið 1970 en þeim leik lauk með 4-3 sigri Ítala eftir framlengdan leik. Annar besti leikurinn þótti sigur Liverpool á AC Milan í úrslitum Meistaradeildarinnar í Istanbul árið 2005 og þriðji besti leikurinn þótti 7-3 sigur Real Madrid á Frankfurt í úrslitaleik Evrópukeppninnar árið 1960.

Það vekur óneitanlega athygli að þeir viðburðir sem lentu í efsta sætinu í flokkunum þremur í kjörinu fóru allir fram í Mexíkóborg - þ.e. mark Maradona í Mexíkó 1986, tilþrif Brasilíumanna á HM í Mexíkó 1970 og eftirminnilegasti leikurinn fór einnig fram á því sama móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×