Innlent

Kallar á aukið brottkast og svindl

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna.
Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna. MYND/365

Kvótakerfið er gjaldþrota og taka verður upp gjörbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi að mati Atla Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna. Hann segir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um verulegan samdrátt í þorskkvóta kalla á aukið brottkast og svindl.

„Meginmarkmið kvótakerfisins var að efla fiskistofna og styrkja sjávarbyggðir í landinu. Það markmið hefur augljóslega brugðist," sagði Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, í samtali við Vísi. „Kvótakerfið er því gjaldþrota að mínu mati."

Atli gagnrýnir harðlega ákvörðun sjávarútvegsráðherra að skera niður þorskkvóta um 63 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári. Hann segir enginn vísindalegur grunnur liggja að baki ákvörðuninni og hún kalli á aukið brottkast og svindl í kerfinu.

Þá segir Atli einboðið að smærrir fyrirtæki í sjávarútvegi og einyrkjar muni yfirgefa greinina. „Þessi ákvörðun þýðir að einokun í greininni mun eflast. Smærri fyrirtæki og einyrkjar munu einfaldlega gefast upp."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×