Innlent

Illa rökstudd ákvörðun sem vinnur gegn landsbyggðinni

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður.
Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður. MYND/GVA

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um verulegan samdrátt í þorskkvóta er illa rökstudd og vinnur gegn smærri fyrirtækjum í sjávarútvegi að mati Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins. Hann segir að þetta muni valda miklum búsifjum á landsbyggðinni.

„Þetta mun hafa slæmar afleiðingar," sagði Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, í samtali við Vísi. „Skipum verður fækkað og almennur samdráttur í sjávarútvegi. Í kjölfarið mun störfum fækka og fólk mun neyðast til að flytja í burtu."

Að mati Kristins eru mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki nægjanlegar til að milda ákvörðunina. „Það sem lítur að atvinnumálum í tillögum ríkisstjórnarinnar er óljóst. Þetta virðist vera meiri í orði en á borði."

Kristinn gagnrýnir að ráðherra hafi einungis tekið mið af umsögn Hafrannsóknarstofnunar í ákvörðun sinni. Hann segir flest benda til þess að þorskstofninn sé í mun betra ástandi og því hafi verið eðlilegra að hafa kvótann hærri. Að mati Kristins kemur þetta til með að skaða lítil útgerðarfyrirtæki og nýliða í greininni. „Þetta knýr fram mikla uppstokkun í sjávarútvegi og vinnur gegn smærri fyrirtækjum og þeim sem eru að reyna fóta sig með lítinn kvóta. Þetta mun valda því að stóru fyrirtækin gleypa þau smáu. "




Fleiri fréttir

Sjá meira


×