Innlent

Aðgangur veittur að persónuupplýsingum án leyfis

Landlæknisembættið veitti aðgang að persónuupplýsingum um fóstureyðingar kvenna án þess að leyfi væri fyrir því. Embættið segir um mistök hafa verið að ræða.

Upplýsingarnar átti að nota í rannsókn á fóstureyðingum. Um var að ræða framhald á rannsókn á fóstureyðingum kvenna á árunum 1999 til 2000. Leyfi fékkst fyrir þeirri rannsókn árið 1999.

Í lok síðasta mánaðar hafnaði Persónuvernd beiðni sem henni hafði borist frá landlækni þess efnis að rannsakendur fengju aðgang að gögnum til nota við framhaldsrannsóknina.

Í úrskurði Persónuverndar vegna málsins kemur fram að á meðan beðið var eftir niðurstöðu Persónuverndar þá hafi Landlæknisembættið veitt aðgang að gögnunum án þess að leyfi hefði fengist.

Landlæknir segir að þær upplýsingar hafi borist til embættis síns að leyfi4 væri komið. Yfirlæknir sem stóð að rannsókninni segir um misskilning að ræða milli sín og starfsmanns embættisins en hann hafi ekki sagt að leyfi væri komið.

Venjan er sú að embættinu þarf að berast skrifleg leyfi til að veita aðgang að gögnum. Svo munnlegt leyfi hefði ekki átt að duga hefði það legið fyrir. Landlæknir segir um mistök að ræða af hálfu embættisins og að tryggt verði að slíkt gerist ekki aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×