Innlent

Hamar vísar ásökunum á bug

MYND/Vilhelm

Verktakafyrirtækið Hamar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem ásökunum Rafiðnaðarsambands Íslands er vísað á bug og þær sagðar rangar. Rafiðnaðarsambandið hefur sagt að hjá Hamri starfi ófaglærðir verkamenn í störfum þar sem krafist sé fagþekkingar. Þá segir sambandið að kjör starfsmannanna séu ófullnægjandi. Hamar bendir á að náið samband hafi verið haft við Starfsgreinasamband Austurlands, AFL og Vinnumálastofnun.

Í yfirlýsingunni er sagt að erlendir rafiðnaðarmenn Hamars hafi einungis starfað undir leiðsögn íslenskra rafvirkjameistara auk þess sem kjör þeirra séu í samræmi við íslensk lög og reglur. Þá segir að allir starfsmennirnir hafi verið tilkynntir til Vinnumálastofnunar.

„Erlendir starfsmenn á vegum Hamars hafa einungis unnið sem aðstoðarmenn rafvirkja með full starfsréttindi og undir leiðsögn íslenskra rafvirkjameistara," segir í yfirlýsingunni. „Gögn um starfsmenntun erlendu rafiðnaðarmannanna hafa verið lögð inn hjá menntamálaráðuneytinu til viðurkenningar. Vinna við útfyllingu umsókna ásamt útvegun nauðsynlegra gagna, s.s. prófskírteina, vottorða um starfsreynslu, starfsþjálfun og starfsréttindi í heimalandi mannanna, hefur staðið yfir undanfarið í samvinnu við ráðuneytið."

Fyrirtækið segir að því hafi verið ranglega haldið fram í fjölmiðlum að mat ráðuneytisins á starfsmenntun erlendu rafiðnaðarmannanna liggi þegar fyrir. „Hið rétta er að það mun verða á næstu dögum." Þá segir að Hamar kappkosti að greiða samkeppnishæf laun.

„Fyrirtækið hefur ávallt tryggt öllum starfsmönnum sínum kaup og kjör í samræmi við íslensk lög og reglur. Einnig hefur fyrirtækið séð til þess að undirverktakar fengju greitt samkvæmt lögum og reglum," segir að lokum og því bætt við að Hamar hafi haft fullt samráð við Vinnumálastofnun um kaup og kjör erlendra starfsmanna undirverktaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×