Innlent

Landlæknir gerir athugasemdir við framgöngu vísindamanna

Gáfu til kynna að nauðsynleg leyfi lægju fyrir
Gáfu til kynna að nauðsynleg leyfi lægju fyrir MYND/Hari

Mistök hjá Landlæknisembættinu urðu þess valdandi að vísindamönnum var veittur aðgangur að gögnum yfir umsóknir um fóstureyðingar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá embættinu. Í umsókn vísindamannanna var gefið til kynna að nauðsynleg leyfi lægju fyrir en nokkru síðar kom í ljós að svo var ekki. Embættið gerir athugasemdir við framgöngu vísindamannanna.

Í yfirlýsingu frá Landlæknisembættinu sem Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðistölfræðisviðs og öryggisstjóri, undirritar kemur fram að það voru mistök hjá embættinu að veita vísindamönnunum aðgang að gögnunum.

Þar segir að í febrúar á þessu ári hafi virtir vísindamenn og háskólakennarar á heilbrigðissviði óskað eftir því að fá aðgang að gögnunum vegna rannsókna á langtímaáhrifum getnaðarvarna. Í byrjun maí var síðan veittur aðgangur að gögnunum eftir að umsækjendur höfðu gefið til kynna að nauðsynleg leyfi lægju fyrir. Nokkru síðar kom í ljós að svo var hins vegar ekki.

Í kjölfarið setti Landlæknisembættið sig í samband við ábyrgðarmann rannsóknarinnar og honum tjáð að eyða þyrfti öllum gögnum sem aflað hafði verið. Síðan var persónuvernd og vísindasiðanefnd upplýst um málsatvik.

Landlæknisembættið gerir athugasemdir við framgöngu vísindamannanna en viðurkennir einnig að meðhöndlun embættisins hafi ekki verið að öllu leyti í samræmi við öryggisreglur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×