Innlent

Ekki kúvending segir ráðherra

Félagsmálaráðherra lækkaði í gær lánshlutfall íbúðalána Íbúðalánasjóðs en hún gagnrýndi harðlega á síðasta ári samskonar aðgerð ríkisstjórnarinnar. Þetta virðist kúvending en Jóhanna segir margt ólíkt með aðgerðunum því nú verði félagslegur þáttur húsnæðislánakerfisins efldur.

Í fyrra lækkaði þáverandi ríkisstjórn lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80% og heildarlánsupphæð var lækkuð um eina milljón króna. Stjórnvöld sögðu aðgerðirnar eiga að slá á þenslu og verðbólguhvata.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, gagnrýndi ákvörðunina. Á heimasíðu sinni sagði hún það með ólíkindum að ríkisstjórnin teldi þessara aðgerðir mikilvægar til að slá á verðbólgu og að bankarnir væru þeir einu sem græddu á þessu.

Þáverandi ríkisstjórn hækkaði lánshlutfallið aftur til sama horfs skömmu fyrir kosningarnar í vor. Félagsmálaráðherra tilkynnti svo í gær að hún hefði ákveðið að lækka lánshlutfallið aftur í 80% til að reyna að slá á þenslu og verðbólgu.

Félagsmálaráðherra segir ekki um kúvendingu að ræða af sinni hálfu þar sem hámarkslán haldast óbreytt og farið verði að vinna að því að efla félagslegan þátt húsnæðislánakerfisins, þar með talinn leigumarkaðinn. Samhliða því verði skýrar skilið á milli almennra og félagslegra lánveitinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×