Erlent

Rússar með reiðubúnir með eldflaugar í Kalíníngrad

Jónas Haraldsson skrifar
Rússar tilkynntu í dag að þeir myndu að flytja eldflaugasveitir sínar til Kaliningrad ef Bandaríkjamenn setja upp eldflaugavarnarkerfi í Austur-Evrópu.

Aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, Sergei Ivanov skýrði frá þessu í dag. Hann tók fram að ef Bandaríkjamenn tækju tilboði Rússa um að notfæra sér ratsjárstöð þeirra í Aserbaídsjan yrði ekkert af flutningi eldflaugasveitanna. Kaliningrad er rússneskt landsvæði sem er umlukið af Eystrasaltinu, Póllandi og Litháen.

Rússar hafa þegar hótað að beina eldflaugum sínum að evrópskum skotmörkum ef eldflaugavarnarkerfið verður að veruleika. Þeir vilja meina að kerfið ógni bæði Rússlandi sem og áhrifasvæði þess. George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt hugmyndir Rússa um ratsjárstöðina áhugaverðar en engu að síður gefið í skyn að þær breyti ekki þeim áætlunum sem fyrir liggja.

Putin fór á sunnudaginn var í tveggja daga heimsókn á ættaróðal Bush-fjölskyldunnar í Maine í Bandaríkjunum í þeim tilgangi að bæta samskipti ríkjanna tveggja. Yfirlýsing Ivanovs gefur hins vegar til kynna að fundurinn hafi ekki borið árangur sem erfiði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×