Innlent

Mikil uppbygging fyrirhuguð í Hveragerðisbæ

Reikna með að íbúafjöldi Hveragerðisbæjar muni aukast á kjörtímabilinu.
Reikna með að íbúafjöldi Hveragerðisbæjar muni aukast á kjörtímabilinu. MYND/EOL

Samningur Hveragerðisbæjar og verktakafyrirtækisins Kambalands ehf um uppbyggingu íbúðabyggðar vestan við núverandi byggð verður undirritaður á morgun. Kambaland keypti svæðið af bænum á 55 milljónir en þar verða byggðar íbúðir fyrir allt að 680 manns. Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar segir áætlanir gera ráð fyrir að íbúafjöldi bæjarins muni aukast um allt að þriðjung á kjörtímabilinu.

„Öll bæjarfélög vilja stækka og Hveragerðisbær er ekkert öðruvísi hvað það varðar," sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, í samtali við Vísi. „Áhugi verktakafyrirtækja á svæðinu er ánægjuefni fyrir bæjarfélagið."

Samkvæmt samkomulaginu kaupir Kambaland ehf. um 6,5 hektara landsspildu vestan byggðar í Hveragerði á 55 milljónir. Að auki fær Hveragerðisbær um 110 milljónir króna í bein fjárframlög frá Kambalandi til að öll þjónusta við framtíðar íbúðasvæði verði tryggð. Alls er gert ráð fyrir því að byggð verði um 220 sérbýli á svæðinu og 40 íbúðir í fjölbýlishúsum.

Verktakafyrirtækið Eykt vinnur nú að skipulagningu hins svokallað Sólborgarsvæðis sem liggur fyrir austan Hveragerði. Þar er áætlað að 2.200 manns muni búa í framtíðinni.

Ásdís segir viðbúið að íbúum í Hveragerði muni fjölga á næstum árum. Á kjörtímabilinu er reiknað með því að íbúafjöldi fari yfir þrjú þúsund en þar búa nú um 2.200 manns. „Hveragerði er að verða eitt atvinnusvæði með höfuðborginni. Vegalengdirnar hafa breyst töluvert og mörgum finnst það ekki mikið tiltökumál að keyra til höfuðborgarinnar á hverjum degi. Ástandið verður enn betra eftir búið er að tvöfalda Suðurlandsveg."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×