Innlent

Hraðakstur veldur flestum banaslysum

Sennilegt að 6 ökumenn og farþegar sem létust á síðasta ári hefðu lifað slysið af ef þeir hefðu notað bílbelti
Sennilegt að 6 ökumenn og farþegar sem létust á síðasta ári hefðu lifað slysið af ef þeir hefðu notað bílbelti MYND/AB

Hrað- og ölvunarakstur valda flestum banaslysum hér á landi samkvæmt nýútkominni skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa. Á árunum 1998 til 2006 mátti rekja 35 prósent banaslysa til þessara tveggja þátta. Þá telur nefndin sennilegt að 6 ökumenn og farþegar sem létust á síðasta ári hefðu lifað af slysið ef þeir hefðu notað bílbelti.

Samkvæmt skýrslunni má rekja 68 prósent af banaslysum í umferðinni á árunum 1998 til 2006 til tíu þátta.

  1. Hraðakstur - fjöldi slysa 36
  2. Ölvunarakstur - fjöldi slysa 31
  3. Bílbelti ekki notað - fjöldi slysa 25
  4. Sofnar undir stýri - fjöldi slysa 10
  5. Biðskylda ekki virt - fjöldi slysa 10
  6. Lyfjanotkun - fjöldi slysa 4
  7. Ökutæki rennur til/lausamöl - fjöldi slysa 4
  8. Veikindi - fjöldi slysa 4
  9. Ölvaður gangandi - fjöldi slysa 4
  10. Grunur um sjálfsvíg - fjöldi slysa 4

Á síðasta ári fórust 31 einstaklingur í 28 banaslysum og var það fjölgun um 12 manns frá árinu þar á undan. Fram kemur í skýrslunni að þessi þróun er á skjön við þróunina árin þar á undan en þá fækkaði banaslysum úr 29 í 19.

Ennfremur kemur fram í skýrslunni að orsakir banaslysa í umferðinni eru oftast vísvitandi brotahegðun en stundum einhvers konar mannleg mistök. Í skýrslunni segir að mjög margir ökumenn sem orsökuðu banaslys á síðasta ári hafi verið með fjölda brota á ferli sínu, sér í lagi hraðakstursbrot. Sumir höfðu verið sviptir ökuréttindum áður. Hvetur nefndin til þess að skoðað verði sérstaklega hvernig betur megi verjast hættulegum ökumönnum til að mynda með sviptingu ökuréttinda og upptöku ökutækja.

Þá sýndu rannsóknir að tæplega helmingur þeirra ökutækja í banaslysum hafi verið í lélegu ásigkomulagi. Oftast var um ræða lélegt ástand hjólbarða, loftþrýstings þeirra eða slit. Í einu tilviki komu í ljós vankantar á viðgerð á hemlarörum og í öðru hafði verið gert við ryðskemmdir í ökutæki með frauðplasti. Bæði ökutækin komust hins vegar í gegnum skoðun athugasemdalaust.

Sjá nánar skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×