Innlent

Samtök banka og verðbréfafyrirtækja brutu gegn samkeppnislögum

Bankarnir studdust við hæpnar forsendur í sínum auglýsingum.
Bankarnir studdust við hæpnar forsendur í sínum auglýsingum. MYND/Kristinn

Samtök banka og verðbréfafyrirtækja brutu gegn samkeppnislögum þegar þau auglýstu að þjónustugjöld íslenskra banka væru þau lægstu á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í áliti Neytendastofu en þar segir ennfremur að auglýsingarnar hafi verið ósanngjarnar gagnvart neytendum. Það voru Neytendasamtökin sem kvörtuðu undan auglýsingunum.

Auglýsingarnar birtust í sjónvarpi árið 2004 en þar var því haldið fram að þjónustugjöld íslenskra banka væru þau lægstu á Norðurlöndum. Auglýsingarnar studdust við könnun sem gerð var á þjónustugjöldum og miðað var við meðaltalstölur og einungis sumir þjónustuliðir bankanna teknir með í reikninginn.

Neytendasamtökin lögðu fram kvörtun vegna auglýsinganna í maímánuði árið 2004. Töldu Neytendasamtökin að auglýsingarnar gæfu ranga mynd af aðstæðum þar sem þær byggðu að mörgu leyti á ófullnægjandi forsendum.

Í niðurstöðu Neytendastofu er fallist á sjónarmið Neytendasamtakanna. Þar segir að með birtingu auglýsinganna hafi Samtök banka og verðbréfafyrirtækja brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga þar sem kveðið er á um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Auglýsingarnar hafi verið ósanngjarnar gagnvart neytendum þar sem ekki hafi verið fullt samræmi milli niðurstaðna kannana og þeirra ályktana sem af þeim voru dregnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×