Innlent

Ráðherra segir margt koma á óvart í sölu Hitaveitu Suðurnesja

Gera mátti ráð fyrir því að einhver myndi nýta sér forkaupsrétt sinn á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja að mati Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra. Hann segir þó sumt í atburðarás síðastliðinna daga koma á óvart.

„Við erum bara seljandinn. Það mátti gera ráð fyrir að einhverjir nýttu sér forkaupsréttinn," sagði Árni M. Mathiesen í samtali við fréttamann Stöðvar 2. „Það er margt einkennilegt í þessu og sumt kemur mjög á óvart."

Árni vildi þó ekki tjá sig frekar um málið.

Hafnarfjörður og Grindavíkurkaupstaður ákváðu í gær að nýta sér forkaupsrétt sinn á 15 prósent hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja.

Ákvörðun bæjarfélaganna er í samræmi við samning þeirra við Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt honum mun Orkuveitan kaupa nánast hlutafé þeirra í HS. Að auki munu bæjarfélögin tvö nýta forkaupsrétt sinn á hlut ríkisins og selja síðan Orkuveitunni.

Upphaflega ætlaði ríkið að selja allan sinn hlut til fyrirtækisins Geysir Green Energy að því undanskildu að engin myndi nýta sér forkaupsrétt sinn.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði í fréttum í gær að hann gæti vel hugsað sér að Reykjanesbær nýti sinn forkaupsrétt og selji síðan Geysir Green Energy.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×