Innlent

Vilja hærra aflamark og niðurfellingu byggðakvóta

Útgerðarmenn vilja byggðakvóta burt.
Útgerðarmenn vilja byggðakvóta burt. MYND/365

Nauðsynlegt er að aflamark í þorski verði 25 til 30 þúsund tonnum meira á næsta fiskveiðiári en tillögur Hafrannsóknarstofnunar gera ráð fyrir. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Sambandið vill ennfremur að línumismunun og byggðakvóti verði felldur niður.

Fram kemur í yfirlýsingunni að sambandið tekur undir mat Hafrannsóknarstofnunar að þorskstofninn sé of lítill. Að mati útgerðarmanna skýrist núverandi ástand fyrst og fremst af því að teknar hafa verið pólitískar ákvarðanir á undanförnum árum um veiðar umfram ráðgjöf.

Sambandið leggur til að aflamark í þorski verði ákvarðað í kringum 155 til 160 þúsund tonn en Hafrannsóknarstofnun lagði til 130 þúsund tonna aflamark. Þá vill sambandið að línumismunum verði felld niður strax og slægingarstuðlar leiðréttir. Ennfremur vilja útgerðarmenn að byggðakvóti verði felldur niður í áföngum á þremur árum og að heimild til geymslu aflamarks á milli fiskveiðiára verði aukið.

Sambandið vill einnig að veiðigjöld verði felld niður og hvalveiðar stórauknar til þess að styrkja loðnustofninn. Þá vilja útgerðarmenn að stjórnvöld hverfi frá handstýrðri hágengisstefnu með því að vextir Seðlabanka Íslands verði lækkaðir strax.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, kynnir tillögur sínar um aflaheimildir fyrir næsta fiskveiðiár á þingflokksfundi sjálfstæðismanna í dag. Ríkisstjórnin fundar um málið á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×