Innlent

Kallar á umræðu um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar

Hart hefur verið deilt um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar á síðastliðnum árum.
Hart hefur verið deilt um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar á síðastliðnum árum. MYND/HH

Umsókn flugfélagsins Iceland Express um aðstöðu til millilandaflugs á Reykjavíkurflugvelli kallar á niðurstöðu um framtíðarstaðsetningu flugvallarins að mati Björns Inga Hrafnssonar, formanns borgarráðs. Hann segir þörf á almennri umræðu um málið áður en ákvarðanir verða teknar.

„Við munum að sjálfsögðu skoða hvernig þjónusta megi þau fyrirtæki sem eru á Reykjavíkurflugvelli," sagði Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, í samtali við Vísi. „Það þarf að sinna flugfélögum eins og öðrum fyrirtækjum."

Fram hefur komið í fjölmiðlum að flugfélagið Iceland Express hyggst leggja fram umsókn um aðstöðu til millilandaflugs á Reykjavíkurflugvelli.

Að sögn Björns hefur erindið ekki formlega borist borgaryfirvöldum en hann á von á því að það berist á næstu dögum. Hann segir ljóst að umsóknin kalli á afstöðu ráðamanna um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. „Þetta sýnir að það er þörf að fá niðurstöðu í málið. Þetta kallar ennfremur á almenna umræðu um hlutverk og staðsetningu flugvallarins. Það er búið að deila um áratugaskeið um innanlandsflug hvað þá alþjóðaflug."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×