Innlent

Ætlar að halda Hitaveitunni á Suðurnesjum

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og stjórnarmaður í Hitaveitu Suðurnesja, segir að bærinn ætli sér að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að halda Hitaveitu Suðurnesja á Suðurnesjum. Hann segir að æskilegast hefði verið að fá fyrirtækið Geysi Green Energy inn í Hitaveituna en úr því að Hafnfirðingar hafi ákveðið að nýta forkaupsrétt sinn á hlut ríkisins í fyrirtækinu sé eðlilegt að Reykjanesbær geri slíkt hið sama til þess að tryggja framtíð Hitaveitunnar á Suðurnesjum.

Árni sagði í Hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag að þrátt fyrir að bærinn ætli sér að nýta forkaupsréttinn í fyrirtækinu sé það ekki á stefnuskránni að eiga svo stóran hlut í Hitaveitunni til langs tíma. Þetta væri því einskonar millileikur en í framhaldi yrði hlutur bæjarins seldur Geysi eða öðrum sem áhuga hefðu. Geysir ætlar sér að reisa framtíðarhöfuðstöðvar sínar á Suðurnesjum.

Árni er ekki sáttur við framgöngu Orkuveitu Reykjavíkur í málinu sem var útilokuð á sínum tíma frá útboðinu. Hann sagði að svo virtist sem Orkuveitan hefði gert öðrum sveitarfélögum tilboð í hluti þeirra í Hitaveitunni án þess að hafa Reykjanesbæ með. Þetta hefðu verið mistök af hálfu Orkuveitunnar.

Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur sem barst í dag er hins vegar áréttað að Orkuveitan hafi ekki gert tilboð í eignarhluti í fyrirtækinu. Hið rétta í málinu sé að nokkrir hluthafar í Hitaveitunni hafi gert Orkuveitunni tilboð að eigin frumkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×