Innlent

Vilja að ríkið haldi sínum hlut í HS

Þingflokkur Vinstri - grænna vill að ríkisstjórnin endurheimti aftur fimmtán prósenta hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja en ríkið bauð hann út á dögunum. Fram kemur í tilkynningu frá þingflokknum að hann vilji að fyrirtækið verði áfram í samfélagslegri eigu til þess að koma í veg fyrir að raforkuverð verið hækkað neytendum til skaða.

Bent er á í yfirlýsingu VG að ýmis sveitarfélög, sem hafi átt eignaraðild að Hitaveitunni, séu uggandi vegna sölu fyrirtækisins og aðkomu einkaaðila að rekstrinum, en Geysir Green Enery, sem meðal annars er í eigu Glitnis og FL Group, átti hæsta boð í hlut ríkisins á dögunum.

VG segir að komið hafi í ljós að fjárfestar mátu fyrirtækið á margfalt hærra verði en opinberir aðilar og það endurspegli trú fjárfesta á möguleikum til að hafa arð út úr orkugeiranum. Það gerist ekki nema með háu orkuverði sem komi til með að bitna á neytendum, heimilum og fyrirtækjum.

Segja vinstri græn að með aðgerðum sínum hafi ríkisvaldið valdið óvissu í rekstri Hitaveitu Suðurnesja og komið samstarfi sveitarfélaga í uppám. Meðal annars í þessu ljósi telji VG að ríkisstjórninni beri að leita allra leiða til að endurheimta hlut sinn í Hitaveitunni.

Fleiri renna hýru auga til Hitaveitunnar því stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ræddi í dag hvort kaupa ætti hlut í fyrirtækinu af sveitarfélögum. Stjórnin frestaði að taka ákvörðun um málið fram á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×