Innlent

Mannlíf segir flokkinn hafa kúgað Morgunblaðið

Fullyrt er í Mannlífsgrein að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi fyrir áratug reynt að kúga Styrmi Gunnarsson, ritstjóra Morgunblaðsins til fylgisspektar við stefnu flokksins. Hafi Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi bankaráðsmaður í Landsbankanum meðal annars krafist gjaldfellingar lána ritstjórans. Kjartan segir þetta staðlausa stafi og slúður.

Í Mannlífsgreininni undir yfirskriftinni "friður óttans er greint frá meintum átökum á milli forystu Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins fyrir áratug. Fullyrt er að Davíð Oddsson og menn honum nærri hafi tortryggt Styrmi þar sem hann hafi talað fyrir auðlindagjaldi og breytingum í utanríkispólitík sem hafi verið flokksforystunni þvert um geð.

Í þessari grein, sem er eftir Jóhann Hauksson blaðamann, er sagt frá því að heilum kafla hafi verið kippt útúr bók Sverris Hermannssonar, fyrrverandi bankastjóra sem kom út fyrir nokkurm árum. Í kaflanum hafi verið fjallað um hótunarbréf sem sent var til Matthíasar Johannesen, ritstjóra Morgunblaðsins. Þar hafi verið haft í hótunum við blaðið og einkum getið um veika stöðu Styrmis Gunnarssonar ritstjóra vegna mikilla skulda. Fjallað er um ófriðinn á milli Styrmis og Davíðs Oddssonar og þess getið að "friður óttans" sé ef til vill besti og varanlegasti friðurinn á milli flokksins og blaðsins. Líkum er að því leitt að höfundur þessa hótunarbréfs sé Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og þáverandi bankaráðsmaður í Landsbankanum. .

Þá er einnig fullyrt í Mannlífsgreininni að Kjartan hafi árið 1995 gengið á fund Sverris Hermannssonar og beðið hann - sem flokksbróður, ekki bankastjóra - að gjaldfella skuldir Styrmis og setja þær í innheimtu. Sverrir hafi neitað.

Í greininni segir svo að Styrmir og Davíð hafi samið um frið og vöngum velt yfir því hvort það hafi verið "friður óttans"

Kjartan Gunnarsson, sagði í samtali við Stöð 2 að þetta væru staðlausir stafir og slúður. Hann hefði hvorki skrifað Mathíasi Jóhannesen bréf né hafi hann nokkru sinni beðið bankastjóra Landsbankastjóra um að gjaldfella lán gagnvart nokkrum. Fleira vildi Kjartan ekki segja um þessa grein. Hvorki Sverrir Hermannsson né Styrmir Gunnarsson vildi láta hafa nokkuð eftir sér um þessa grein í Mannlífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×