Innlent

Braust inn og barði húsráðanda

Karlmaður á þrítugsaldri var í gær úrskurðaður í viku gæsluvarðhald vegna alvarlegrar líkamsárásar á uppstigningardag. Maðurinn er grunaður um að hafa brotist sér leið inn á heimili við Skólavörðustíg og gengið í skrokk á húsráðanda sem var þar í fasta svefni.

Mennirnir tveir eru málkunnugir. Hinn grunaði ku hafa heimsótt húsráðanda fyrr um morguninn í leit að fyrrverandi kærustu sinni en ekki haft erindi sem erfiði. Hann virtist þá reiður og afbrýðissamur og grunaði manninn um að slá sér upp með sinni fyrrverandi. Það var svo um klukkan ellefu sem hinn grunaði snéri aftur.

Hann hringdi þá á öllum bjöllum og beið þar til honum var hleypt inn í stigaganginn. Þegar þangað var komið braust hann inn í íbúðina, fann þar húsráðanda sofandi og gekk í skrokk á honum.

Það var svo rétt upp úr klukkan tvö á uppstigningardag sem nágranni varð þess var að brotist hefði verið inn í íbúðina. Þegar hann aðgætti málið betur sá hann húsráðanda þar sem hann lá meðvitundarlaus í blóði sínu. Að sögn var aðkoman skelfileg. Nágranninn hringdi strax á lögreglu sem flutti manninn á slysadeild. Maðurinn er mjög illa farinn og er til að mynda með opið nefbrot, kinnbeinsbrotinn, brákaður á kjálka og bólginn og blár. Maðurinn sem grunaður er um verknaðinn var í gær úrkurðaður í vikugæsluvarðhald. Að sögn lögreglu er rannsókn málsins á frumstigi en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur hinn grunaði ekki játað á sig verknaðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×