Innlent

Bæjarbúar dofnir

Íbúar Flateyrar eru dofnir yfir tíðndum gærdagsins og vonlitlir um áframhaldandi rekstur í bænum. Engin ríkisstjórn hvorki sú sem er að fara frá völdum, né sú sem tekur við getur horft aðgerðarlaus á, segir sjávarútvegsráðherra.

Í gær var tilkynnt um lokun útgerðar- og fiskvinnslufyrirækisins Kambs á Flateyri. Það þykir mikið reiðarslag fyrir bæinn en á Flateyri búa tæplega 400 manns og missa um þriðjungur bæjarbúa vinnuna eða 120 manns. Samanborið við höfðatölu Reykjavíkur jafngildir það því að 35 þúsund manns sé sagt upp á einu bretti í Reykjavík. Íbúar Flateyrar eru vonlitlir um að hægt verði að byggja upp sambærilega atvinnustarfssemi í plássinu aftur.

Sjávarútvegsráðherra segir fréttirnar hörmulegar og hafa komið á óvart. Nú skipti mestu að aflaheimildirnar haldist á svæðinu.

Undir þetta tekur bæjarstjórn Ísafjarðar sem hefur fundað um málið en Kambur hefur verið að vinna um 9 þúsund af bolfiski en aflaheimildir sem fyrirtækið á eru 2700 tonn.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur fyrirtækið Jakob Valgeir í Bolungarvík sýnt áhuga á að kaupa hluta kvótans sem og hraðfrystihús Ísafjarðar. Það hefur þó ekki fengist staðfest.

Nýverið var 40 manns sagt upp störfum í rækjuvinnslunni í Bolungarvík. Sjávarútvegsráðherra segir þessi tvö mál ólík og óskyld. Hins vegar sé ekki hægt að líta framhjá því að leysa þurfi vanda Flateyrar og engin ríkisstjórn geti látið ástandið þar framhjá sér fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×