Innlent

13 atkvæða munur á stjórn og stórnarandstöðu

Samfylking, Frjálslyndir og Vinstri grænir fengu samtals þrettán atkvæðum meira í kosningunum en stjórnarflokkarnir tveir. Tugir atkvæða greidd í útlöndum voru ógild vegna klúðurs hjá starfsmönnum utanríkisþjónustunnar.

Þrátt fyrir augljóst skemmtigildi í kosningasjónvarpi, þar sem frambjóðendur rokka inn og út af þingi yfir atkvæðatalninguna, skilar kosningakerfið þeirri niðurstöðu að einn flokkur getur fengið fleiri þingmenn í kjördæmi en næsti flokkur þó hann hafi færri atkvæði. Vægi atkvæða er ekki jafnmikið.

Ef landið allt væri eitt kjördæmi hefðu atkvæði stjórnarflokkana skilað þeim 30 þingmönnum en ekki 32. Ef ekki væri fimm prósenda þröskuldur hefði Íslandshreyfingin fengið tvo þingmenn. Eins hefði Frjálslyndi flokkurinn fengið einum þingmanni meira og Samfylking þyrfti að skila þingmanni - fengi einum færa.

Þá er athyglisvert að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fengu 88 098 atkvæði. Frjalslyndir, Samfylking og Visntri grænir fengu 88 111 atkvæði. Þrettán atkvæðum meira en stjórnarflokkarnir. Í nýju kerfi með landið eitt kjödæmi hefði því munur á stjórn og stjórnarandstöðu orðið afar lítill - svo naumur að eflaust hefði verið rifist um hvert atkvæði.

Þess má geta að að minnsta kosti nokkur tugur atkvæða sem komu frá sendiráðum og ræðismönnum í útlöndum spilltist þar sem gleymdist að setja á utnakjörfundaratkvæðin embættisstimpil og/eða undirskrift. Alltaf hafa verið brögð að þessu í kosningum en að sögn talsmanns utanríkisráðuneytisins er minna um þetta nú en oft áður. Ekki liggur fyrir hversu mörg atkvæðu fóru forgörðum vegna þessa en að sögn Þórunnar Guðmundsdóttur formann yfirkjörstjórnar í Reykjavík Norður voru nokkrir tugir atkvæða ógildir vegna þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×