Innlent

Stjórnarflokkar veita formönnum umboð

Þingflokkar stjórnarflokkanna funduðu í gærkvöldi og veittu báðir formönnum sínum óskorað umboð til að leiða viðræður um framhald stjórnarsamstarfs.

Nýir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru tíu talsins og þeim var vel fagnað við upphaf þingflokksfundar í Alþingishúsinu í gærkvöldi. Einn nýliðanna nú er þó gamalreyndur, Árni Johnsen, og honum var einnig vel tekið. Kosningarnar skiluðu flokknum 25 þingmönnum, þremur fleiri en áður, og er þetta sem fyrr stærsti þingflokkurinn á Alþingi. Formaðurinn var hylltur sérstaklega við upphaf fundar og fékk hann óskorað umboð þingmanna sinna til viðræðna um stjórnarsamstarf.

Þingmenn og ráðherrar Framsóknarflokksins hittust á skrifstofu flokksins klukkan hálfníu í gærkvöldi og stóð fundur þeirra yfir í tvær og hálfa klukkustund. Bjartsýnistónn var í flokksformanninum að loknum fundi. Aðrir þingmenn og ráðherrar vildu ekki tjá sig en vísuðu á formanninn og sögðu hann hafa fullt umboð þingflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×