Innlent

Þorgerður lýsir áhyggjum af Framsókn

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti áhyggjum af innri vanda Framsóknarflokksins í hádegisviðtalinu á Stöð tvö og andstöðu meðal framsóknarmanna við endurnýjun stjórnarsamstarfs. Hún telur einsýnt að farið verði í endurskipulagningu Stjórnarráðsins og atvinnuvegaráðuneyti sameinuð.

Þorgerður segir gott traust ríkja á milli stjórnarflokkanna en er samt ekki viss um framhald samstarfsins. Hún vitnaði til ummæla Bjarna Harðarsonar, hins nýkjörna þingmanns, í Silfri Egils um helgina, og einnig til skrifa Einars Sveinbjörnssonar, aðstoðarmanns Jónínu Bjartmarz, sem segir að forysta flokksins verði að skilja skilaboð kjósenda og Framsóknarflokkurinn með lægsta fylgi í sinni 90 ára sögu getur fátt annað gert en að sleikja sárin í stjórnarandstöðu. Einar sagði einnig að í sínum huga væri framhald núverandi stjórnarsamstarfs vanhugsað feigðarflan fyrir Framsóknarflokkinn. Aðalheiður Sigursveinsdóttir, aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur, minnir hins vegar á þolanlega útkomu flokksins í landsbyggðarkjördæmum og segist því ekki á á neinn hátt sjá að flokkurinn hafi verið kosinn til valdaleysis fyrir landsbyggðina, síður en svo. Það er mín skoðun að flokkurinn eigi að halda áfram að vera þessi drifkraftur, það gerir hann best í ríkisstjórn, segir Aðalheiður.

Þorgerður vill að tækifærið nú verði notað til að sameina ráðuneyti. Í hádegisviðtalinu nefndi hún sérstaklega sameiningu landbúnaðarráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis og jafnvel einnig iðnaðarráðuneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×