Innlent

Ársreikningur borgarinnar óviðunandi

MYND/Vilhelm

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri segir ársreikning borgarinnar fyrir árið 2006 óviðunandi en halli af rekstri borgarinnar nam 4,3 milljörðum í fyrra.

Í ræðu sinni í fyrri umræðu um ársreikninginn í borgarstjórn skellti Vilhjálmur skuldinni á R-listann og sagði það sérstakt rannsóknarefni hvernig honum hefði tekist í einu mesta góðæri Íslandssögunnar að hækka skatta og skuldir, reka Aðalsjóð Reykjavíkurborgar með halla og fæla fólk yfir í önnur sveitarfélög.

Stjórnarskipti urðu í borginni í fyrra þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn tóku við af R-listanum og sagði Vilhjálmur árið því að nokkru leyti munaðarlaust í reikningum borgarinnar. Hins vegar bæri R-listinn ekki aðeins ábyrgð á rekstri borgarinnar fram að stjórnarskiptum heldur einnig fjárhagsáætlun ársins.

Vísaði Vilhjálmur í endurskoðunarskýrslu frá Grant Thornton sem fylgdi ársreikningnum. Þar hefði komið fram að halli á A-hluta borgarinnar hefði verið viðvarandi frá árinu 2002 og að slík niðurstaða gæti engan veginn talist ásættanleg þegar litið væri til hagstæðs efnahagsástands og í ljósi þess að A-hlutinn hefði notið verulegra arðgreiðslna frá fyrirtækjum borgarinnar öll þessi ár.

Þá benti samanburður á afkomu Reykjavíkurborgar og annarra stærri sveitarfélaga til að rekstrarárangur borgarinnar væri langt undir því sem almennt gerðist hjá þeim sveitarfélögum. Brýnt væri að leita skýringa á þessu.

Sagði Vilhjálmur þetta áfellisdóm yfir störfum R-listans sem þó kæmi honum ekki á óvart þar sem hann hefði margsinnis bent á veikburða fjármálastjórn R-listans.

Sagði hann nýjan meirihluta þegar hafa brugðist við og unnið væri að úrbótum. Mikið verk væri fram undan sem ynnist ekki á einni nóttu en hann vonaði að borgarfulltrúar gætu sameinast um það markmið að bæta rekstur Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×