Innlent

Samskip dæmt til að greiða ekkju sjómanns bætur

MYND/GVA

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Samskip til að greiða ekkju skipverja, sem lést þegar skip Samskipa sökk árið 1997 á leið sinni frá Íslandi til meginlands Evrópu, 1,8 milljónir króna vegna missis framfæranda.

Konan byggði mál sitt á því að aðalorsök slyssins hefði verið vanbúnaður skipsins ásamt því að skipstjórnendur hefðu tekið rangar ákvarðanir og ekki staðið sig sem skyldi. Samskip héldu því hins vegar fram að slysið hefði verið óhappatilviljun sem félagið bæri ekki ábyrgð á.

Dómurinn komst að því, út frá niðurstöðum rannsóknarnefndar sjóslysa og matsmanna, að útbúnaður skipsins hefði ekki verið með þeim hætti að saknæmt væri þótt ýmsu hefði verið ábótavant.

Hins vegar tók dómurinn undir með konunni að skipstjórinnn hefði sýnt af sér saknæmt gáleysi með því að senda ekki út neyðarkall fyrr en tæpum þremur tímum eftir að skipið tók að halla. Samkvæmt tímaskýrslum hefði verið unnt að bjarga skipshöfninni af skipinu áður en skipinu hvolfdi og áður en áhöfnin fór í sjóinn ef neyðarkall hefði verið sent út fyrr.

Segir í dómnum að eiginmaður konunnar hafi fengið hjartaáfall við það að fara í sjóinn og telur dómurinn yfirgnæfandi líkur á því að rétt viðbrögð skipstjóra á fyrri stigum hefðu leitt til þess að áhöfninni hefði verið bjargað áður en hún lenti í sjónum. Því verði að telja að andlát eiginmanns stefnanda sé bein afleiðing af þessari saknæmu háttsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×