Innlent

Dæmdur í fangelsi fyrir ofsakstur

MYND/RE

Karlmaður var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af þrjá óskilorðsbundna, fyrir ofsakstur. Þá var manninum einnig gert að greiða 300 þúsund krónur í sekt til ríkissjóð.

Maðurinn, sem er 21 árs gamall, var handtekinn í síðastliðnum febrúarmánuði eftir mikinn eltingarleik um götur borgarinnar. Þurfti lögreglan að aka á bifreiðina til að stöðva för mannsins.

Lögreglan hóf eftirför eftir að hafa mælt manninn á allt að 160 kílómetra hraða á Vesturlandsvegi. Hann sinnti ekki stöðvunarskyldu lögreglu og barst eltingarleikurinn inn á Suðurlandsbraut þar sem hann ók á allt að 130 kílómetra hraða. Það var ekki fyrr en við vegamót Súðavogar sem lögreglunni tókst að stöðva för piltsins með því að aka á bifreið hans. Hafði hann í millitíðinni stofnað lífi og heilsu tveggja farþega bifreiðarinnar og annarra vegfarenda á akstursleiðinni í hættu.

Pilturinn bar því við fyrir dómi að þar sem hann hafi verið drukkinn og án ökuskírteinis hafi hann vilja freista þess að stinga lögregluna af. Blóðsýni tekinn af piltinum sýndu ennfremur að hann hafði neytt fíkniefna nokkrum dögum áður. Ekki er þó talið hann hafi verið undir áhrifum þeirra þegar á akstrinum stóð.

Pilturinn hefur fimmtán sinnum áður verið fundinn sekur um hegningarlaga-, umferðarlaga-, og fíkniefnabrot á tímabilinu 2004 til 2006. Þar af hefur hann hlotið sex dóma fyrir hegningarlagabort. Með ofsaakstrinum í febrúar rauf hann ennfremur skilyrði reynslulausnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×