Innlent

Ragnheiður hættir sem bæjarstjóri

MYND/GVA

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, mun hætta sem bæjarstjóri þegar hún tekur sæti á Alþingi. Þessu lýsti Ragnheiður yfir í samtali við fréttamann Stöðvar 2 í dag.

Ragnheiður segist hlakka til að takast á við þennan nýja vettvang og leggja sitt af mörkum til að gera gott samfélag betra. Aðspurð segir hún að hana hafi ekki alltaf dreymt um að setjast á Alþingi. Hún hafi hins vegar tekið þátt í stjórnmálum á sveitarstjórnarstigi og í ljósi þess að Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, hafi verið á leið af þingi hafi hún talið að Mosfellingar ættu áfram að hafa sinn fulltrúa á þingi.

Ragnheiður segist ekki geta sinnt starfi bæjarstjóra samfara þingstörfum og því taki nýr maður við stjórnartaumunum í Mosfellsbæ á sumri komanda. Ekki liggur fyrir hver það verður.

Ragnheiður náði kjöri á Alþingi sem sjötti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi en það er sterkasta vígi flokksins á landsvísu. Hún hefur verið bæjarstjóri í Mosfellsbæ frá árinu 2002 þegar sjálfstæðismenn fengu hreinan meirihluta í sveitastjórnarkosningum. Flokkurinn tapaði hins vegar meirihlutanum í kosningunum í fyrra og tók upp samstarf við vinstri græna í bæjarfélaginu í framhaldinu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×