Innlent

Fangavörður dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi

MYND/SK

Fyrrverandi fangavörður á Litla Hrauni var í dag dæmdur í Héraðsdómi Suðurlands í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir peningaþvætti og smygl á fíkninefnum inn í fangelsið. Fangi sem aðstoðaði vörðinn við smyglið var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi þar af voru tveir mánuðir skilorðsbundnir.

Fangavörðurinn, sem er karlmaður, var handtekinn í ágúst á síðasta ári þegar hann reyndi að smygla 33,66 grömmum af amfetamíni og 241,15 grömmum af kannabis inn í fangelsið. Hugðist hann skilja fíkniefnin eftir í fangaklefa meðákærða.

Vörðurinn játaði brot sitt frá upphafi en hann hefur ekki áður komist í kast við lögin svo vitað sé. Fanginn sem aðstoðaði vörðinn neitaði hins vegar aðild að málinu við rannsókn lögreglu. Hann játaði hins vegar síðar fyrir dómi. Sá afplánar nú fjögurra ára fangelsisdóm á Litla Hrauni fyrir fíknefnabrot og bætist dómurinn við þá refsingu.

Fangaverðinum var ennfremur gert að sæta upptöku á 210 þúsund krónum sem var greiðsla fyrir fíkniefnin. Þá var honum gert að greiða allan sakarkostnað upp á rúma hálfa milljón króna.

Fanganum var gert að greiða sakarkostnað að upphæð 361 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×